Haaland spurningamerki fyrir Liverpool-leikinn

Erling Haaland.
Erling Haaland. AFP/Javier Soriano

Óvíst er hvort norski framherjinn Erling Haaland geti tekið þátt í leik Manchester City og Liverpool í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta sem fram fer í Manchester á sunnudaginn kemur.

Haaland, sem er 24 ára gamall, var ónotaður varamaður þegar City féll úr leik í Meistaradeildinni í gær eftir 3:1-tap gegn Real Madrid í síðari leik liðanna í umspili keppninnar í Madríd en Real vann einvígið samanlagt 6:3.

„Hann reyndi að taka þátt í æfingu liðsins í gær en það gekk því miður ekki,“ sagði Pep Guardiola þegar hann ræddi ástand framherjans við fjölmiðlamenn eftir tapið á Spáni í gær.

„Það lítur allt vel út á myndum en honum líður ekki nægilega vel og á erfitt með gang. Honum finnst vont að ganga upp og niður stiga sem dæmi. 

Honum leið einfaldlega ekki nægilega vel á leikdegi og hann spilaði því ekki. Við þurfum að bíða og sjá hvernig þetta þróast fyrir helgina,“ bætti Guardiola við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert