Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United eru allt annað en sáttir við leka innan félagsins en starfsfólki þess hefur verið hótað brottrekstri ef upp kemst um að það hafi lekið viðkvæmum upplýsingum.
The Guardian greinir frá. Omar Berrada framkvæmdastjóri félagsins hefur hafið rannsókn á lekamálum félagsins. Sendi hann starfsfólki tölvupóst og hótaði uppsögnum. Þykir það frekar kaldhæðnislegt að tölvupósti Berrada var síðan lekið.
Mikið hefur gustað um Manchester United síðustu mánuði og fjölmargir starfsmenn félagsins misst vinnuna til að lækka kostnað á daglegum rekstri félagsins.