Auðkýfingurinn Sir Jim Ratcliffe hefur komið sér á forsíður ensku fréttamiðlanna enn á ný en hann er einn af stærstu eigendum enska knattspyrnufélagsins Manchester United.
Ratcliffe hefur verið duglegur að skera niður kostnað hjá United, alveg frá því að hann eignaðist hlut í félaginu á síðasta ári, en hann hefur meðal annars sagt upp fjölda starfsfólks innan félagsins.
Auðkýfingurinn hefur heldur ekki sýnt kvennaliði félagsins mikinn áhuga en hann heimsótti Carrington-æfingasvæði félagsins fyrr á árinu.
Þar ræddi hann meðal annars við Katie Zelem, þáverandi fyrirliða liðsins; „Hvað gerir þú hjá Manchester United?“ á hann að hafa spurt Zelem.
Zelem er uppalin hjá félaginu og hefur leikið með því frá því að hún var átta ára gömul. Hún var fyrirliði liðsins þegar United varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu kvennaliðsins, síðasta vor. Þá á hún að baki 12 A-landsleiki fyrir England.