Búast má við miklum hreinsunum hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester City í sumar.
Það er breski miðillinn Daily Star sem greinir frá þessu en City, sem er ríkjandi Englandsmeistari, hefur valdið miklum vonbrigðum á tímabilinu.
Liðið féll úr leik í umspili Meistaradeildarinnar á dögunum eftir tap gegn Real Madrid og þá er City sem stendur í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar með 44 stig, 17 stigum á eftir toppliði Liverpool.
Daily Star býst við því að þeir Kevin De Bruyne, Bernardo Silva, John Stones, Mateo Kovacic, Ilkay Gündogan, Ederson og Jack Grealish muni allir yfirgefa félagið í sumar.
City fékk nokkra nýja og yngri leikmenn til félagsins í janúarglugganum og er fastlega búist við því að sú enduruppbygging muni halda áfram í sumar.