Knattspyrnumaðurinn Darwin Núnez birti yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum X en Núnez var mikið gagnrýndur eftir leik Liverpool og Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudagskvöld.
Núnez fór illa með algjört dauðafæri undir lok leiks og Arne Slot knattspyrnustjóri Liverpool gagnrýndi Úrúgvæjann eftir leik. Framherjinn ætlar ekki að gefast upp.
„Ég var ekki sá besti fyrir þremur vikum og ég er ekki sá versti núna. Ef ég hrasa, stend ég aftur upp. Þú munt aldrei sjá mig gefast upp. Ég mun skilja allt eftir fram að síðasta degi hjá Liverpool,“ skrifaði hann á samfélagsmiðilinn.