Everton og Manchester United gerðu jafntefli, 2:2, í 26. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á Goodison Park í dag.
Everton er í 12. sæti með 31 stig en Manchester United er í 15. sæti með 30 stig.
Beto kom Everton yfir á 19. mínútu með marki eftir mikinn usla í teig United. Þá skaut hann í grasið og þaðan hafnaði boltinn í þaknetinu, 1:0.
Abdoulaye Doucouré tvöfaldaði forystu Everton-manna á 33. mínútu. Þá átti Jack Harrison skot sem André Onana varði. Doucouré var mun sterkari en Maguire í baráttunni um seinni boltann og stangaði hann í netið, 2:0.
Manchester United kom til baka í seinni hálfleik. Á 72. mínútu minnkaði Bruno Fernandes muninn með marki beint úr aukaspyrnu en þá skaut hann fast í markmannshornið, 2:1.
Manuel Ugarte jafnaði síðan metin á 80. mínútu með glæsilegu skoti á lofti, 2:2, og allt jafnt.
Everton fékk víti undir blálok leiks þegar að Ashley Young lét sig detta inn í teignum eftir baráttu við Matthijs de Ligt og Harry Maguire. Andy Madley dómari var hins vegar settur í skjáinn og dró dóminn til baka, við litla hrifningu stuðningsmanna Everton.