Liverpool náði ellefu stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með útisigri á Manchester City, 2:0, í stórleik á Etihad-vellinum í Manchester í dag.
Liverpool er nú með 64 stig á meðan Arsenal í öðru sæti er með 53. City er í fjórða sæti með 44 stig.
City var mikið með boltann í upphafi leiks en illa gekk að finna glufur á sterkri vörn gestanna, sem freistuðu þess að sækja hratt.
Það tókst vel á 14. mínútu þegar Mo Salah kom Liverpool yfir eftir vel útfærða hornspyrnu sem Luis Díaz náði í eftir snögga sókn. Alexis Mac Allister sendi lága sendingu á nærstöngina á Dominik Szoboszlai sem lagði boltann á Salah sem skoraði úr teignum.
City var áfram meira með boltann eftir markið en rétt eins og fyrir markið gekk illa að búa til færi. Það var svo Liverpool sem skoraði annað markið á 37. mínútu þegar Salah lagði boltann á Szoboszlai sem lagði hann snyrtilega í hornið úr teignum.
Erling Haaland er fjarri góðu gamni vegna meiðsla og án hans tókst City illa að ógna marki Liverpool og var staðan í leikhléi 2:0.
Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað. City var meira með boltann og mikið á vallarhelmingi gestanna. Það gekk hins vegar ekkert að skapa færi og var Liverpool nær því að skora hinum megin.
Curtis Jones kom boltanum í markið á 57. mínútu en markið stóð ekki vegna rangstöðu. Szoboszlai komst einn í gegn undir lok leiks en Abdukodir Khusanov bjargaði með glæsilegri tæklingu.
Hinum megin var lítið að gera hjá Alisson og Liverpool fagnaði enn einum sigrinum.