Unai Emery stjóri Aston Villa er ánægður með Marcus Rashford en leikmaðurinn er á láni hjá Aston Villa frá Manchester United.
„Rashford hefur verið frábær, nú viljum við að hann verði stöðugt frábær,“ sagði Emery eftir 2:1-sigur Aston Villa gegn Chelsea í gær en Rashford lagði upp bæði mörk Villa.
Rashford var ekki í myndinni hjá Ruben Amorim, nýja stjóra Man. United, en Portúgalinn taldi Rashford þurfa að breyta hugsunarhætti sínum til að eiga möguleika á að spila aftur fyrir United.
„Við viljum styðja við Marcus, hjálpa honum. Reyna að láta honum líða vel hérna og hjálpa honum að fá sjálfstraust sitt til baka,“ sagði Emery.