Eiður Smári Guðjohnsen og Margrét Lára Viðarsdóttir voru gestir Harðar Magnússonar í Vellinum á Símanum sport í gærkvöldi.
Þar fóru þau yfir 26. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu en meðal annars ræddu þau um Chelsea og aðalstjörnu liðsins Cole Palmer.
Chelsea hefur gengið brösuglega undanfarið og Palmer hefur ekki fundið sig. Hörður spurði Eið hvað væri að frétta.
„Það er rosalega erfitt að vera 22 og aðalstjarna liðsins. Fyrir 22 ára leikmenn að bera sóknarleikinn á herðum sér getur verið aðeins of mikið. Mér finnst vanta eldri kynslóð inn í þennan klefa,“ sagði Eiður Smári meðal annars en umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.