„Við munum vinna deildina,“ sungu stuðningsmenn Liverpool þegar lítið var eftir af leik liðsins gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gærkvöldi.
Liverpool vann 2:0 og náði í leiðinni ellefu stiga forskoti á toppi deildarinnar. Phil McNulty, aðalknattspyrnublaðamaður BBC, er sannfærður um að stuðningsmennirnir hafi rétt fyrir sér.
„Það er stærðfræðilega mögulegt fyrir Liverpool að missa þetta forskot niður en eins og Liverpool hefur spilað, aðeins tapað einum deildarleik, þá er liðið ekki að fara að missa niður ellefu stiga forskot þegar ellefu leikir eru eftir.
Sjö af leikjunum ellefu eru á Anfield og Liverpool má misstíga sig aðeins, þótt Slot vilji það ekki. Ef Liverpool misstígur sig þá þarf Arsenal á sama tíma að vinna svo gott sem alla leiki og Arsenal ræður ekki eins vel við pressu,“ skrifar hann meðal annars.