Brighton & Hove Albion vann sterkan sigur á Bournemouth, 2:1, í 27. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld og er farið að blanda sér af alvöru í baráttuna um sæti í Evrópukeppni á næsta tímabili líkt og Fulham, sem vann Wolves 2:1.
Brighton er eftir sigurinn í áttunda sæti með 43 stig líkt og Chelsea og Bournemouth í sætunum fyrir ofan. Manchester City eru skammt undan í fjórða og fimmta sæti með 44 stig hvort.
Í Brighton var það Joao Pedro sem braut ísinn fyrir heimamenn með marki úr vítaspyrnu eftir tólf mínútna leik. Eftir klukkutíma leik jafnaði Justin Kluivert svo metin fyrir Bournemouth.
Stundarfjórðungi fyrir leikslok tryggði Danny Welbeck, sem hafði komið inn á sem varamaður þremur mínútum fyrr, Brighton 2:1-sigur.
Fulham gerði góða ferð til Wolverhampton og vann heimamenn með minnsta mun.
Fulham er í níunda sæti með 42 stig en Wolves er í 17. sæti með 22 stig, fimm stigum fyrir ofan fallsæti.
Ryan Sessegnon kom Fulham í forystu eftir aðeins 58 sekúndna leik. Joao Gomes jafnaði hins vegar metin fyrir Úlfana á 18. mínútu.
Í upphafi síðari hálfleiks tryggði Rodrigo Muniz gestunum í Fulham sigurinn eftir undirbúning Adama Traoré, sem lék um árabil með Wolves.
Loks vann Crystal Palace frækinn sigur á Aston Villa, 4:1, í Lundúnum.
Palace er eftir sigurinn í 12. sæti með 36 stig og Villa fer niður í tíunda sæti þar sem liðið er áfram með 42 stig og því enn í harðri baráttu um Evrópusæti.
Ismaila Sarr kom Palace yfir eftir tæplega hálftíma leik en Morgan Rogers jafnaði metin fyrir Villa snemma í síðari hálfleik.
Jean-Philippe Mateta kom Palace yfir að nýju eftir tæplega klukkutíma leik og Sarr bætti svo öðru marki sínu og þriðja marki Palace á 71. mínútu.
Eddie Nketiah innsiglaði svo sigurinn endanlega með fjórða marki Palace á fyrstu mínútu uppbótartíma.