Norski markahrókurinn Erling Haaland tók þátt í æfingu Englandsmeistara Manchester City í knattspyrnu í dag og gæti því snúið aftur í leikmannahóp liðsins fyrir leik gegn Tottenham Hotspur í úrvalsdeildinni annað kvöld.
Haaland hefur misst af síðustu tveimur leikjum Man. City, stórleikjum gegn Real Madríd og Liverpool, en virðist búinn að jafna sig á smávægilegum hnémeiðslum.
Hann hefur skorað 19 mörk í 25 leikjum í úrvalsdeildinni á tímabilinu og er næstmarkahæstur í deildinni ásamt Alexander Isak hjá Newcastle United, en Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool, er markahæstur með 25 mörk.