Enski knattspyrnumaðurinn John Stones verður frá keppni næstu rúmu tvo mánuðina hið minnsta vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik Manchester City og Real Madríd í Meistaradeildinni 19. febrúar síðastliðinn.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, greindi frá tíðindunum á blaðamannafundi. Stones sleppur við aðgerð en verður þrátt fyrir það frá næstu 8-10 vikur.
Stones hefur áður glímt við meiðsli á tímabilinu og aðeins spilað 20 leiki í öllum keppnum. Hann fór af velli eftir aðeins átta mínútur gegn Real.
Varnarmaðurinn, sem getur einnig spilað á miðjunni, missir af fyrstu landsleikjum Englands undir stjórn Thomas Tuchel gegn Albaníu og Lettlandi í undankeppni HM í næsta mánuði.