Erik ten Hag, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, skaut á leikmenn liðsins í spjalli við SEG Stories, sem er miðill í eigu umboðsskrifstofu Hollendingsins.
Ten Hag var rekinn frá United í október, þremur mánuðum eftir að hann gerði nýjan tveggja ára samning við félagið. Hann skaut á hugarfar gömlu lærisveina sinna.
„Þessi kynslóð leikmanna á mjög erfitt með að taka gagnrýni og hún tekur gagnrýni persónulega. Kynslóðin mín tók þetta ekki svona inn á sig. Nýja kynslóðin móðgast of auðveldlega,“ sagði ten Hag.
Hollendingurinn þurfti að glíma við hin ýmsu mál sem stjóri United. Lenti hann í rifrildi við Cristiano Ronaldo og Jadon Sancho sem endaði með að þeir yfirgáfu báðir félagið.
Þá refsaði hann Marcus Rashford fyrir að fara í óleyfi á djammið í Belfast og tilkynna sig veikan daginn eftir.
„Sir Alex Ferguson gat verið miklu hreinskilnari en stjórarnir í dag. Leikmenn í dag móðgast þegar maður er einfaldlega að leiðbeina þeim,“ bætti ten Hag við.