Slot gagnrýnir framherjann aftur

Arne Slot er ekki sáttur við vinnuframlagið hjá Darwin Núnez.
Arne Slot er ekki sáttur við vinnuframlagið hjá Darwin Núnez. AFP/Paul Ellis

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, gagnrýndi framherjann sinn Darwin Núnez í annað sinn á skömmum tíma á blaðamannafundi í gær.

Úrúgvæinn fór illa með dauðafæri gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni 19. febrúar síðastliðinn og kom ekkert við sögu í sigrinum á Manchester City á sunnudag.

Eftir leikinn gegn Villa gagnrýndi Slot framherjann fyrir að leggja sig ekki nægilega mikið fram eftir klúðrið dýrkeypta og hollenski stjórinn gagnrýndi sóknarmanninn aftur í gær.

„Ég sagði honum að hann mætti brenna af færinu en það er ekki ásættanlegt þegar leikmenn gefa ekki allt í þetta. Það var í annað sinn í tveimur leikjum sem hann lagði ekki nógu mikið á sig og því talaði ég um það opinberlega.

Ég get ekki sætt mig við að leikmenn leggi sig ekki 100 prósent fram. Þú verður að berjast fyrir liðið og Darwin er elskaður því hann gerir það ávallt en ekki eins mikið í síðustu leikjum,“ sagði Hollendingurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert