Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool á Englandi, var í dag úrskurðaður í tveggja leikja bann af enska knattspyrnusambandinu.
Bannið fær Slot fyrir framkomu sína í garð Michaels Olivers eftir leik Liverpool og Everton í ensku úrvalsdeildinni á dögunum.
Slot var afar ósáttur við störf dómarans í leiknum og fékk að líta rauða spjaldið í lok leiks eftir samskipti þeirra á milli.
Bannið tekur nú þegar gildi og verður Slot því ekki á hliðarlínunni í leik Liverpool og Newcastle í deildinni í kvöld. Eins verður hann í banni þegar Liverpool fær botnliðið Southampton í heimsókn 8. mars.
Slot var einnig sektaður um 70 þúsund pund eða um 12,7 milljónir króna. Sipke Hulshoff, aðstoðarmaður Slots, var einnig úrskurðaður í tveggja leikja bann og mun Johnny Heitinga því stýra Liverpool í kvöld.