Svarar ekki landsliðsþjálfaranum

Anthony Elanga í leik með Nottingham Forest.
Anthony Elanga í leik með Nottingham Forest. AFP/Oli Scarff

Sænski knattspyrnumaðurinn Anthony Elanga, kantmaður Nottingham Forest, er ekki hluti af sænska landsliðinu sem stendur þar sem hann svarar ekki danska landsliðsþjálfaranum Jon Dahl Tomasson; hvorki símhringingum né skilaboðum.

Elanga er sagður ósáttur við að hafa ekki spilað eina einustu mínútu fyrir Svíþjóð í landsleikjaglugga í október síðastliðnum.

Þegar Tomasson ætlaði að heyra hljóðið í Elanga í næsta glugga í nóvember náði þjálfarinn ekki í hann og valdi Elanga því ekki í hópinn. Þá kvaðst Tomasson búast við því að ræða við Elanga fyrir næsta glugga í mars en það hefur þó ekki gerst ennþá.

„Ég er ánægður að sjá að honum gengur vel. Hann er einn af þeim leikmönnum sem við erum að fylgjast með. Ég hef alls hringt sjö sinnum í hann og einnig sent skilaboð.

Boltinn er því hjá honum núna,“ sagði Tomasson í samtali við sænska miðilinn Expressen og lagði áherslu á að hann loki aldrei neinum dyrum þegar kemur að leikmönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert