Tíu United-menn unnu nýliðana

Leikmenn Manchester United fagna sigurmarki Harry Maguire í kvöld.
Leikmenn Manchester United fagna sigurmarki Harry Maguire í kvöld. AFP/Oli Scarff

Manchester United hafði betur gegn nýliðum Ipswich Town, 3:2, í 27. Umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld. Man. United lék einum færri allan síðari hálfleikinn.

Man. United er eftir sigurinn áfram í 14. sæti en nú með 33 stig. Ipswich er í 18. sæti með 17 stig, fimm stigum frá öruggu sæti.

Það blés ekki byrlega fyrir heimamenn í Man. United þegar Patrick Dorgu ætlaði að senda til baka á André Onana en boltinn hafnaði þess í stað hjá Jaden Bidace sem renndi boltanum í autt markið og kom gestunum í Ipswich yfir.

Um miðjan fyrri hálfleikinn jafnaði Man. United þegar Sam Morsy varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Skömmu síðar, á 26. Mínútu, kom Matthijs de Ligt heimamönnum í forystu.

Skömmu fyrir leikhlé fékk Patrick Dorgu beint rautt spjald fyrir gróft brot og áður en fyrri hálfleikur var úti skoraði Bidace sitt annað mark og jafnaði metin fyrir Ipswich.

Harry Maguire tryggði svo Man. United sigurinn með góðu skallamarki eftir hornspyrnu Bruno Fernandes strax í upphafi síðari hálfleiks.

Einum færri héldu Rauðu djöflarnir út og unnu sér inn kærkomin þrjú stig.

Jafnt hjá Brentford og Everton

Brentford fékk Everton í heimsókn og lyktaði leiknum með jafntefli, 1:1.

Brentford er í 11. sæti með 38 stig og Everton er í 15. sæti með 32 stig.

Yoane Wissa kom Brentford í forystu í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Jake O’Brien jafnaði metin fyrir Everton með góðum skalla 13 mínútum fyrir leikslok.

Hákon Rafn Valdimarsson var varamarkvörður Brentford í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert