„Carragher getur farið til andskotans“

John Obi Mikel.
John Obi Mikel. AFP

John Obi Mikel, fyrrverandi leikmaður Chelsea og nígeríska landsliðsins í knattspyrnu, er ekki ánægður með ummæli sparkspekingsins Jamie Carragher um að Afríkumótið væri ekki stórmót.

Carragher sagði í útsendingu á Sky Sports að það kæmi niður á möguleikum Mohamed Salah að vinna Gullboltann vegna þess að sem Egypti gæti hann ekki unnið stórmót með landsliði sínu. Er Carragher var bent á Afríkumótið sagði hann: „Í alvöru!“

„Það sem hann sagði markast af svo mikilli vanvirðingu og þetta kemur frá manni sem vann aldrei stórmót með Englandi. Þessi fullyrðing hans var fullkomlega röng.

Ég vona að hann komi fram með risa afsökunarbeiðni því hann skuldar fólki um allan heim eina slíka. Það er fáfræði að vanvirða svona dásamlega keppni.

Ef þú heldur að enska úrvalsdeildin væri það sem hún er í dag með aðeins enska leikmann þá ertu í gríninu. Hrokafullt helvítis glottið hans var það sem gerði mig brjálaðan,“ sagði Mikel í hlaðvarpsþætti sínum The Obi One Podcast.

Vanvirðir alla Afríku

Hann hélt áfram:

„Samstarfsmenn hans reyndu að leiðrétta hann en í staðinn ræðstu á alla og dregur þessa yndislegu keppni í dilka. Þessi gaur segir svo margt í sjónvarpinu. Hann vann aldrei úrvalsdeildina, greinir lið og segir þeim hvernig þau eiga að vinna deildina.

Afríkubúar horfa á þig um helgar og þú situr þarna, opnar munninn og vanvirðir alla helvítis Afríku með því að segja Afríkumótið vera ömurlegt.

Hún hefur ekkert gildi því hún er ekki EM eða Ameríkubikarinn. Hann getur farið til andskotans. Við í Afríku vitum hvað við færum úrvalsdeildinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert