West Ham United vann þægilegan sigur á nýliðum Leicester City, 2:0, þegar liðin áttust við í 27. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í Lundúnum í kvöld.
West Ham fór með sigrinum upp í 15. sæti þar sem liðið er með 33 stig. Leicester er áfram í fallsæti, 19. sæti, með 17 stig, fimm stigum frá öruggu sæti.
Liðið hefur tapað 11 af 14 leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni eftir að Ruud van Nistelrooy tók við stjórnartaumunum í lok nóvember á síðasta ári.
Tomás Soucek og Jarrod Bowen skoruðu mörk Hamranna í fyrri hálfleik.