Borgar máltíð fyrir liðið og málinu lokið

Rúben Amorim og Alejandro Garnacho.
Rúben Amorim og Alejandro Garnacho. Ljósmynd/AFP/Samsett

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, segir ekkert vandamál vera á milli hans og Alejandro Garnacho eftir að leikmaðurinn fór í fússi inn í búningsklefa eftir að hafa verið skipt af velli í fyrri hálfleik í sigri á Ipswich Town í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudagskvöld.

Amorim neyddist til að gera skiptingu eftir að vinstri vængbakvörðurinn Patrick Dorgu fékk beint rautt spjald og bakvörðurinn Noussair Mazraoui kom þá inn á fyrir Garnacho.

Ásýnd er mikilvæg hjá United

Amorim sagði eftir leik að hann hygðist ræða við Garnacho eftir að hann strunsaði inn í klefa.

„Hann kom til mín á skrifstofuna daginn eftir. Ég rannsakaði þetta aðeins og hann fór í búningsklefann og skipti um föt því hann var blautur. Hann horfði á restina af leiknum annars staðar en á varamannabekknum.

Í lok leiks var hann kominn á bekkinn og fór svo heim. Þannig að það er ekkert vandamál þar. En ég sagði honum að hjá Manchester United er allt mikilvægt og þar er ásýnd mjög mikilvæg. Því mun hann borga máltíð fyrir allt liðið og þá er málinu lokið,“ sagði Amorim á fréttamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka