Javier Tebas, forseti spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu, hefur greint frá því að hann hafi fyrir hönd deildarinnar kært enska félagið Manchester City til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna meintra brota á samkeppnislögum.
Tebas greindi frá því á leiðtogafundi Financial Times vegna fjármála knattspyrnufélaga að kæran hafi verið lögð fram árið 2023 og að hann teldi að málið væri nú í rannsóknarferli.
Kæran var lögð fram þar sem Tebas telur að Man. City byggi félagið sitt upp gagngert með það að markmiði að fara í kringum reglur, til að mynda með því að stofna fjölda fyrirtækja og láta þau taka á sig tap.
„City er með fjölda fyrirtækja sem liggja utan City Football Group (eigenda Man. City), auka fyrirtæki sem taka á sig útgjöldin. Þessi fyrirtæki tapa peningunum en ekki félagið sjálft.
Við höfum tilkynnt Manchester City til ESB. Við erum með staðreyndir og gögn máli okkar til stuðnings,“ sagði Tebas meðal annars.