Sleppti þyrlufagninu í virðingarskyni

Tomás Soucek fagnar marki sínu í gærkvöldi ásamt Oliver Scarles.
Tomás Soucek fagnar marki sínu í gærkvöldi ásamt Oliver Scarles. AFP/Ben Stansall

Tékkneski knattspyrnumaðurinn Tomás Soucek kveðst ekki hafa viljað fagna marki sínu fyrir West Ham United gegn Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi af virðingarskyni við andstæðingana.

Soucek fagnar mörkum sínum venjulega með því að leika eftir þyrlu en þótti það ekki viðeigandi með tilliti til hræðilegs þyrluslyss sem þáverandi eigandi Leicester, Vichai Srivaddhanaprabha, týndi lífinu í ásamt fjórum öðrum árið 2018.

Slysið átti sér stað eftir leik Leicester og West Ham á heimavelli Leicester í úrvalsdeildinni.

„Mér fannst það ekki vera rétt að taka mitt hefðbundna þyrlufagn vegna þess sem kom fyrir eiganda Leicester.

Ég vildi fagna markinu með liðinu mínu en ég vildi líka sýna andstæðingum okkar virðingu,“ sagði Soucek við fréttamenn eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka