Hollenski knattspyrnumaðurinn Cody Gakpo tók ekki þátt í æfingu enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool í morgun.
Enska félagið birti myndir af æfingu liðsins á samfélagsmiðlum sínum í dag en æfingin var opin almenningi og tóku glöggir stuðningsmenn Liverpool strax eftir því að Gakpo var fjarverandi.
Liverpool mætir París SG í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í París á morgun en Gakpo hefur verið að glíma við ökklameiðsli að undanförnu.
Hann er næstmarkahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með 16 mörk í öllum keppnum en hann hefur komið við sögu í tveimur síðustu leikjum Liverpool í deildinni, í bæði skiptin kom hann inn á sem varamaður.