Liverpool-maðurinn fyrrverandi íhugaði sjálfsvíg

Jason McAteer.
Jason McAteer. Ljósmynd/Liverpool

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn og núverandi sparkspekingurinn Jason McAteer hefur opnað sig um mikla andlega erfiðleika sem hann glímdi við í kjölfar þess að hafa lagt skóna á hilluna árið 2007.

McAteer lék með Liverpool, Bolton Wanderers, Blackburn Rovers, Sunderland og Tranmere Rovers á ferlinum.

„Ég fann ekki fyrir neinum tilgangi. Það var enginn strúktúr. Vinnan í sjónvarpi var ekki þannig að maður væri að vinna á hverjum degi vikunnar. Það var kannski einn eða tveir þættir á viku. Það var mjög losaralegt.

Margir dagar þar sem ég hafði ekkert að gera. Ég fór í göngin á milli Wirral og Liverpool. Ég kom barninu mínu, sem bjó við hinn enda ganganna, í erfiðar aðstæður í sambandi okkar. Þegar ég keyrði í gegnum göngin kom það mér í uppnám því það minnti mig á gamla tíma.

Þegar maður kemur út úr göngunum í dagsljósið er það eins og það kvikni á ljósaperu. Ég man að ég hugsaði: „Ég keyri bílinn út af hérna og bind enda á þetta“,“ sagði McAteer í hlaðvarpsþætti annars fyrrverandi knattspyrnumanns, Mikaels Silvestre.

Sakna þess sárt

Írinn hélt áfram og brotnaði niður:

Svo auðvelt er það. Ég barðist við sjálfan mig að gera það ekki. Rödd í huga mér sagði: „Láttu verða af því, láttu verða af því.“ Og ég svaraði: „Nei.“ „Gerðu það.“ „Nei.“ Ég var að berjast við að halda stýrinu á réttum kjöl.

Þegar ég kom við enda ganganna umfaðmaði dagsbirtan mig og ég man eftir því að hafa komið út um göngin og hugsað: „Guði sé lof.“ Og ég fór að sækja litla strákinn minn.

Ég fór síðan til mömmu minnar. Hún átti heima tíu mínútum frá og ég sagði við hana að ég gæti þetta ekki lengur: „Þetta er búið.“ Ég var bara kominn þangað. Þetta var erfitt.

Það var allt horfið. Ég sakna þess svo mikið. Ég sakna alls við það að spila fótbolta. Ég sakna þess sárt. Frelsið á fótboltavellinum, engin vandamál.“

Ef ein­stak­ling­ar upp­lifa sjálfs­vígs­hugs­an­ir er hjálp­arsími Rauða kross­ins, 1717, op­inn all­an sól­ar­hring­inn. Einnig er net­spjall Rauða kross­ins, 1717.is, opið all­an sól­ar­hring­inn. Píeta-sam­tök­in veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218. Á net­spjalli á Heilsu­vera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkr­un­ar­fræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert