Karlalið Newcastle United í knattspyrnu hefur orðið fyrir miklu áfalli þar sem vinstri bakvörðurinn Lewis Hall leikur ekki meira með liðinu á tímabilinu vegna meiðsla.
Hall braut bein í fæti í 2:0-tapi fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni fyrir viku síðan og þarf af þeim sökum að gangast undir skurðaðgerð.
Í kjölfarið hefst endurhæfing en mun hann ekki snúa aftur fyrr en að tímabilinu loknu.
Hinn tvítugi Hall hefur fest sig í sessi sem lykilmaður hjá Newcastle á tímabilinu og lék sína fyrstu tvo A-landsleiki fyrir England í nóvember síðastliðnum.