Stjarna í ensku úrvalsdeildinni í lífstíðarbann?

Lucas Paquetá gæti verið á leiðinni í lífstíðarbann.
Lucas Paquetá gæti verið á leiðinni í lífstíðarbann. AFP/Ben Stansall

Mál brasilíska knattspyrnumannsins Lucas Paquetá vegna meintra brota á veðmálareglum ensku úrvalsdeildarinnar verður tekið fyrir í mánuðinum. Enska knattspyrnusambandið vill úrskurða hann í lífstíðarbann.

Paqu­etá er sakaður um að fá vilj­andi gul spjöld í leikj­um með West Ham. Um 60 manns í heima­land­inu græddu sam­an­lagt rúm­ar 18 millj­ón­ir króna fyr­ir að veðja á að leikmaður­inn fengi spjald í ákveðnum leikj­um.

Sky greinir frá að málið verði tekið fyrir í þessum mánuði og að það muni taka um þrjár vikur að fá niðurstöðu.

Hefur Brasilíumaðurinn verið einn besti leikmaður West Ham síðan hann gekk í raðir félagsins frá Lyon árið 2022. Manchester City hafði áhuga á honum áður en málið kom upp.

Paquetá hefur leikið 55 landsleiki fyrir Brasilíu og skorað í þeim ellefu mörk. Í 82 leikjum með West Ham í ensku úrvalsdeildinni eru mörkin tólf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert