Vilja lengra bann eftir tæklinguna hræðilegu

Jean-Philippe Mateta fær súrefni eftir tæklinguna hættulegu.
Jean-Philippe Mateta fær súrefni eftir tæklinguna hættulegu. AFP/Glyn Kirk

Enska knattspyrnusambandið hefur lagt fram formlega beiðni til eftirlitsnefndar sambandsins í því skyni að lengja fyrirhugað leikbann Liam Roberts, markvarðar Millwall, eftir stórhættulega tæklingu hans á Jean-Philippe Mateta, sóknarmann Crystal Palace, í ensku bikarkeppninni á laugardag.

Robert sparkaði í höfuð Mateta af öllu afli er þeir börðust um boltann. Franski framherjinn lá óvígur eftir með djúpan skurð við eyra og þurfti súrefni. Eftir að hann var fluttur á sjúkrahús þurfti að sauma 25 spor við eyra Mateta.

Markvörðurinn fékk beint rautt spjald fyrir brotið en þó ekki fyrr en VAR benti Michael Oliver dómara á að gula spjaldið sem hann gaf upphaflega væri alls ekki nóg.

Roberts fer sjálfkrafa í þriggja leikja bann fyrir rauða spjaldið en knattspyrnusambandið greindi frá því í dag að það væri „augljóslega ekki nógu langt“ er sambandið tilkynnti að það myndi óska eftir lengra banni fyrir markvörðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert