Svíinn Alexander Isak hefur átt frábært tímabil, kominn með 19 mörk og fimm stoðsendingar fyrir Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni til þessa. Hann er nú metinn á 100 til 150 milljónir sterlingspunda og fáir fá meira rými í dálkum þar sem meint félagaskipti leikmanna eru til skoðunar.
Það dettur þó hvorki né drýpur af honum innan um allar vangavelturnar og fyrirsagnirnar. Og hann er þess umkominn að skila sínu undir öllum mögulegum kringumstæðum og hefur gert frá því að ferill hans sem atvinnumaður byrjaði.
Hann man það sem gerst hefði í gær. Eftir að hafa leikið með félögum á borð við Celtic og Southampton sneri Jos Hooiveld aftur til AIK árið 2015, þar sem hann hafði orðið sænskur meistari fyrr á ferlinum. Meðan hann lék á Englandi átti hann í höggi við elítumiðherja eins og Sergio Agüero, Luis Suárez, og Wayne Rooney, en þegar hann kom aftur til AIK og var að búa sig undir tímabilið 2016 varð á vegi hans ungur og hæfileikaríkur leikmaður sem hann áttaði sig strax á að ætti eftir að ná langt.
„Einn daginn vorum við að spila 11 gegn 11 í stórri knattspyrnuhöll,“ rifjar Hooiveld upp. „Fyrir leik tók ég eftir grönnum pilti ganga í salinn. Það var 16 ára miðherji og ég hugsaði með mér: Hann er ungur og örugglega mjög fljótur – þannig að ég þarf að hlaupa mikið – en sjálfsagt ekki mikil ógn af honum knattspyrnulega.“
Það fór á annan veg. Þessi grannvaxni miðherji, Alexander Isak að nafni, reyndist búa yfir frábærri tækni. „Snemma leiks fékk hann boltann úti á kanti og hægði snöggvast á sér. Þannig að ég gerði slíkt hið sama. Síðan gaf hann allt í einu í, vúmm!, með tuðruna á tánum, hljóp inn fyrir mig og skoraði. Skyndilega vorum við undir, 1:0.“
Gott og vel, hugsaði Hooiveld með sér. Þetta verður allt í lagi. Skömmu síðar endurtók leikurinn sig hins vegar. „Þarna var hann aftur mættur og hægði aðeins á sér og ég hugsaði: Ég held mig þá bara fyrir framan hann, annars gæti þetta gerst aftur. En hvað var a’tarna? Búmm, bang – hann tékkaði inn, rétt fyrir aftan mig og skoraði aftur,“ segir hann hlæjandi.
„Við vorum tveimur mörkum undir eftir aðeins korters leik. Hvað er eiginlega á seyði hérna? hugsaði ég með mér. Þessi gæi er svakalega góður. Ég er skreflangur á sprettinum en það er hann líka. Hann er öskufljótur og ofboðslega léttur á fæti; þegar hann rýkur af stað er eins og boltinn sé límdur við tærnar.“
Eftir þessa fyrstu æfingu gaf þjálfarinn sig á tal við Hooiveld. „Vá, tilkomumikið, ekki satt? Við höfum trú á því að hann eigi eftir að verða stórstjarna.“ Hooiveld kinkaði koll: „Það held ég líka.“
Þess var ekki langt að bíða að sænska þjóðin fengi að kynnast þessum hæfileikum en Isak skoraði í fyrsta leik í bæði deild og bikar. Fyrsti leikurinn í Alsvenskan var úti gegn Östersunds, sem Graham Potter þjálfaði á þeim tíma. Svíar höfðu haft veður af táningnum og sjónvarpsstöðin sem sýndi beint frá leiknum óskaði eftir viðtali við Isak í leikhléi, þegar lið hans var 1:0 yfir. Hooiveld steig inn í þá atburðarás. „Ekki aldeilis, lagsi. Þú ferð beint niður í klefa, einbeittu þér að seinni hálfleiknum, við þurfum annað mark.“
Hann fékk á hinn bóginn skömm í hattinn eftir leik enda eru þessi viðtöl víst skylda. „En mér fannst galið að taka viðtal við 16 ára strák í hans fyrsta leik.“
Nánar er fjallað um feril Alexanders Isaks í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.