Hvenær gæti Liverpool fagnað titlinum?

Mohamed Salah og Trent Alexander-Arnold leikmenn Liverpool.
Mohamed Salah og Trent Alexander-Arnold leikmenn Liverpool. AFP/Paul Ellis

Liverpool er með fimmtán stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu þegar tíu umferðir eru eftir af tímabilinu en Liverpool á þó aðeins níu leikjum ólokið.

Liðið spilar ekki fleiri leiki í mars þar sem það er landsleikjahlé síðustu tíu dagana og liðið mætir áður Newcastle í úrslitaleik enska deildabikarsins og París SG í Meistaradeild Evrópu.

Liverpool getur því ekki orðið enskur meistari í þessum mánuði en ef liðið vinnur næstu tvo leiki og önnur úrslit falla með þeim gæti liðið fagnað titlinum á heimavelli gegn West Ham 13. apríl. Til þess að það gerist þarf Arsenal að tapa næstu fjórum leikjum.

Nottingham Forest getur mest náð 81 stigi á tímabilinu, Chelsea 79 stigum og Manchester City 77 stigum en liðin myndu einnig þurfa að tapa stigum fyrir þann tíma.

Ef Liverpool verður enn með 15 stiga forskot 26. apríl þá myndi jafntefli gegn Tottenham duga til þess að vinna deildina. Þá væru fjórar umferðir eftir af tímabilinu.

Ef Liverpool missir forystuna niður í tíu stig þá þarf liðið að bíða með fagnaðarlætin þar til í maí þegar liðið mætir Chelsea á útivelli.

Liverpool mætir Arsenal 10. maí og þó að Liverpool missi forystuna niður í sjö stig myndi jafntefli í þeim leik duga, ef Arsenal væri eina liðið sem gæti tekið titilinn af Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert