Manchester United og Arsenal skildu jöfn, 1:1, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á Old Trafford í Manchester í kvöld.
Arsenal er í öðru sæti með 55 stig, 15 stigum á eftir Liverpool. United er í 14. sæti með 34 stig.
Arsenal var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en illa gekk að skapa mjög opin færi, gegn United liði sem varðist á mörgum mönnum.
Það var því gegn gangi leiksins sem að Bruno Fernandes skoraði glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu á lokamínútunni og var staðan í leikhléi 1:0.
Þannig var hún allt þar til á 74. mínútu er Declan Rice jafnaði með fallegu skoti utarlega í teignum í stöng og inn og þar við sat.
Bæði lið fengu góð færi til að skora sigurmarkið og var Fernandes hársbreidd frá því að skora þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka en David Raya í marki Arsenal varði stórglæsilega og skiptu liðin með sér stigunum.