Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool, reyndi að koma í veg fyrir að liðið gerði sína sjöttu skiptingu þegar það vann Southampton 3:1 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.
Venjulega mega lið í deildinni gera fimm skiptingar en þeim getur fjölgað komi til þess að þau þurfi að gera skiptingu vegna heilahristings.
Southampton neyddist til að gera eina slíka í fyrri hálfleik þegar Jan Bednarek fór af velli eftir að hafa fengið höfuðhögg og gátu þar af leiðandi gert alls sex skiptingar.
Mohamed Salah has just been desperately trying to stop Liverpool making a sixth substitution there so they don't get docked points. Looked like the referee had to explain to him they get an extra one due to the earlier head injury.
— David Lynch (@davidlynchlfc) March 8, 2025
Það sem færri vissu, þar á meðal Salah, var að gerist þetta fær hitt liðið líka að gera eina auka skiptingu.
Egyptinn hefur vísast óttast að Liverpool gæti staðið frammi fyrir stigafrádrætti vegna ólöglegrar skiptingar en líkt og David Lynch, fréttamaður hjá staðarblaðinu Liverpool Echo, benti á lét dómari leiksins Salah vita að Jarell Quansah væri óhætt að koma inn á undir lokin sem sjötti skiptimaður Liverpool.