Tottenham bjargaði jafntefli

Dominic Solanke og Son Heung-Min fagna jöfnunarmarki þess síðarnefnda í …
Dominic Solanke og Son Heung-Min fagna jöfnunarmarki þess síðarnefnda í dag. AFP/Ben Stansall

Tottenham Hotspur og Bournemouth skildu jöfn, 2:2, í bráðskemmtilegum leik í 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Tottenham Hotspur leikvanginum í dag. Bournemouth komst tveimur mörkum yfir áður en Tottenham jafnaði.

Bournemouth er í áttunda sæti með 44 stig og Tottenham er í 13. sæti með 34 stig.

Marcus Tavernier kom gestunum frá Bournemouth í forystu skömmu fyrir leikhlé með viðstöðulausu skoti á lofti af stuttu færi eftir glæsilega fyrirgjöf Milos Kerkez af vinstri kantinum.

Evanilson tvöfaldaði svo forystu Bournemouth á 65. mínútu þegar hann vippaði boltanum snyrtilega framhjá Guglielmo Vicario eftir laglega stungusendingu Justin Kluivert.

Aðeins tveimur mínútum síðar minnkaði Pape Matar Sarr muninn fyrir Tottenham þegar fyrirgjöf hans eða skot af hægri kantinum sveif yfir Kepa Arrizabalaga í marki Bournemouth og í stöngina og inn.

Kepa fékk svo dæmda á sig vítaspyrnu þegar hann tók fyrirliðann Son Heung-Min niður í vítateignum. Son steig sjálfur á vítapunktinn og skoraði af öryggi sex mínútum fyrir leikslok.

Staðan orðin 2:2 og reyndust það lokatölur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert