Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur hafið viðræður við Crystal Palace um kaup á franska sóknarmanninum Jean-Philippe Mateta.
Franska dagblaðið L’Équipe greinir frá því að Man. United vilji festa kaup á Mateta í sumar. Enska blaðið Mirror skýrir þá frá því að kaupverðið væri um 40 milljónir punda, jafnvirði 7 milljarða íslenskra króna.
Mateta er 27 ára gamall og var keyptur til Palace frá Mainz í Þýskalandi í janúar árið 2022 eftir að hafa verið hjá liðinu að láni í eitt ár þar á undan. Síðan þá hefur hann skorað 44 mörk í 139 leikjum í öllum keppnum.
Man. United er í leit að sóknarmanni þar sem tveir framherjar liðsins, Rasmus Höjlund og Joshua Zirkzee, hafa ekki verið iðnir við kolann á tímabilinu. Höjlund er með sjö mörk í 36 leikjum á tímabilinu og Zirkzee með sex mörk í 41 leik.