Enski knattspyrnumaðurinn Kobbie Mainoo er sagður efstur á óskalista forráðamanna enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea.
Það er vefmiðillinn Caught Offside sem greinir frá þessu en Mainoo, sem er 19 ára gamall, er uppalinn hjá Manchester United og hefur leikið með félaginu allan sinn feril.
Hann hefur verið lykilmaður í liðinu undanfarin tvö tímabil en United gæti þurft að selja leikmanninn í sumar til þess að losa um fjármagn og kaupa nýja leikmenn.
Miðjumaðurinn á að baki 60 leiki fyrir United í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað sex mörk en hann er samningsbundinn United út keppnistímabilið 2026-27. Chelsea gæti þurft að borga í kringum 80 milljónir punda fyrir miðjumanninn.