Enska knattspyrnufélagið Manchester United kynnti í dag áætlanir um að reisa á næstu árum nýjan leikvang sem yrði sá stærsti á Bretlandseyjum og myndi rúma 100 þúsund áhorfendur.
Meðeigandinn Jim Ratcliffe skýrði frá þessu á heimasíðu félagsins og kvaðst vilja byggja glæsilegasta knattspyrnuvöll heims við hliðina á Old Trafford, núverandi heimavelli félagsins.
„Í dag hefst ótrúlega spennandi ferðalag. Núverandi leikvangur hefur nýst okkur stórkostlega undanfarin 115 ár en er ekki lengur á meðal bestu leikvanga heims. Með því að byggja við hliðina á núverandi velli munum við varðveita Old Trafford um leið og við sköpum sannkallaðan glæsileikvang, nokkrum skrefum frá okkar sögulega heimavelli,“ segir Ratcliffe á heimasíðunni.
Manchester United hefur leikið á Old Trafford frá árinu 1910 og hann rúmar 74.310 áhorfendur. Aðeins Wembley og ruðningsvöllurinn Twickenham í Lundúnum eru stærri leikvangar á Bretlandseyjum.