Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Dean Windass var í upphafi árs greindur með annars stigs heilabilun, 55 ára að aldri.
Windass var sterkur miðjumaður og sóknarmaður sem lék lengst af í neðri deildum Englands, sem eiga það til að einkennast af mikilli hörku. Telur hann það hversu oft hann skallaði boltann á ferlinum hafa haft sitt að segja þegar kom að greiningunni.
„Nei, ég bjóst alls ekki við því að fá þessa greiningu. Ef þú hefðir sagt mér það þá að það að skalla boltann myndi leiða til heilabilunar, jú ég hefði gert það í leikjum en ég hefði ekki gert það jafn oft á æfingum.
Maður gerir það við alls kyns aðstæður á æfingum. Það er skallatennis, fyrirgjafa- og skotæfingar. Ef þú færð þessa greiningu 20 árum síðar þá ferðu að hugsa þig tvisvar um.
Ég hefði ekki gert þetta svona en það er ekkert sem ég get gert í því núna,“ sagði Windass í viðtali í sjónvarpsþættinum BBC Newsnight.
Hann lék hluta ferilsins í ensku úrvalsdeildinni með Bradford, Hull og Middlesbrough.