Hjartað stöðvað og komið aftur af stað

Stuart Pearce.
Stuart Pearce.

Flytja þurfti fyrrverandi knattspyrnumanninn Stuart Pearce á sjúkrahús í St. John’s í Kanada í síðustu viku eftir að hjartavandamál gerðu vart við sig hjá Pearce á meðan hann var í flugi annað.

Pearce, sem er 62 ára gamall, var um borð í flugvél Virgin Atlantic þegar hann hóf að finna verki fyrir brjósti. Flugáhöfn kom Pearce til aðstoðar og veitti honum aðhlynningu.

Flugvélin þurfti að breyta um leið og lenda í Kanada þar sem þörf var á því að láta hjarta Pearce fara að slá aftur með eðlilegum hætti.

„Hjartsláttur minn var alltof hraður, hvíldarpúlsinn minn frá því ég var skoðaður um borð var um 155 slög á mínútu. Það er í raun fáránlegt.

Hjartað mitt var þá ekki að pumpa nægilega miklu blóði í kringum það og það voru einhverjar bólgur. Í lok vikunnar sögðu þau mér að þau þyrftu að troða slöngu ofan í kokið á mér og að ef það væri engin bólga myndu þau stöðva hjartað mitt og koma því aftur af stað.

Það er nákvæmlega það sem þau gerðu á föstudag. Hjartað mitt fór þá aftur að slá í venjulegum takti og ég var útskrifaður af sjúkrahúsi daginn eftir,“ sagði Pearce í samtali við talkSPORT.

Hann var þekktur fyrir sín þrumuskot og að vera harður í horn að taka og lék lengst af með Nottingham Forest á ferli sínum.

Alls lék Pearce 78 leiki fyrir enska landsliðið, þar sem hann tók þátt á HM 1990 og EM 1992 og 1996.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert