Breski fjölmiðlamaðurinn og leikarinn Rory Jennings fór ófögrum orðum um danska framherjann Rasmus Höjlund á dögunum.
Höjlund, sem er 22 ára gamall, hefur ekki átt fast sæti í liði Manchester United síðan Ruben Amorim tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í nóvember á síðasta ári.
Daninn gekk til liðs við United frá Atalanta, sumarið 2023, fyrir 64 milljónir punda en hann hefur aðeins skorað tvö mörk í 23 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
„Rasmus Höjlund er lélegasti leikmaður í sögu Manchester United,“ sagði Jennings í samtali við talkSport.
„Hann er vandræðalega slakur. Hann á ekki heima á þessu getustigi leiksins. Það er ekki annað hægt en að kenna í brjósti um hann.
Hann væri í vandræðum með að fá mínútur hjá QPR,“ bætti Jennings við en QPR er sem stendur í fjórtánda sæti ensku B-deildarinnar með 44 stig.