Létu til sín taka á Englandi

Alfons Sampsted krækti í vítaspyrnu í sigri Birmingham í kvöld, …
Alfons Sampsted krækti í vítaspyrnu í sigri Birmingham í kvöld, í sínum 200. deildarleik á ferlinum. Ljósmynd/Birmingham City

Stefán Teitur Þórðarson og Alfons Sampsted, landsliðsmenn í knattspyrnu, reyndust liðum sínum mikilvægir í B og C-deildum Englands í kvöld.

Stefán Teitur lék fyrstu 75 mínúturnar og lagði upp mark Preston North End í jafntefli gegn Sunderland á útivelli, 1:1.

Preston er í 15. sæti með 44 stig.

Alfons fékk kærkomið tækifæri í byrjunarliði Birmingham City og nýtti það vel. Lék hann fyrstu 70 mínúturnar og fékk vítaspyrnu í 2:1-sigri á Stevenage í C-deildinni.

Alfons var þar með í fyrsta sinn í byrjunarliði Birmingham í deildarleik og spilaði um leið sinn 200. deildarleik á ferlinum.

Willum Þór Willumsson lék þá allan leikinn fyrir Birmingham, sem er á toppi deildarinnar með 82 stig, 14 stigum meira en Wycombe og Wrexham í sætunum fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert