Liverpool-aðdáendur fóru margir á límingunum þegar lið þeirra tapaði í vítaspyrnukeppni eftir framlengdan leik í Meistaradeildinni í gærkvöldi.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust að minnsta kosti tvær kvartanir sem lutu að þessu.
„Engum varð þó meint af í þeim tveimur málum sem sinnt var vegna þessa í gærkvöld, en þá höfðu áhyggjufullir nágrannar hringt í lögregluna eftir að óhljóð höfðu borist á milli íbúða,“ skrifar lögreglan í stuttri tilkynningu um viðbrögð aðdáendanna eftir tap í vítaspyrnukeppninni.
„Að tapa með þeim hætti er sárt og því fylgja stundum öskur og læti enda vonbrigðin gríðarleg hjá eldheitum stuðningsmönnum,“ segir lögreglan.
„Til að gæta allrar sanngirni skal tekið fram að útköll sem þessi eru ekki einvörðungu bundin við stuðningsmenn Liverpool, nei síður en svo.“