Trent Alexander-Arnold, hægri bakvörður Liverpool, þurfti að fara meiddur af velli er liðið tapaði fyrir París SG í vítaspyrnukeppni í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi.
Alexander-Arnold fór af velli í síðari hálfleik eftir að hafa fengið högg á hnéð eftir baráttu við Vitinha.
„Hann þurfti að fara af velli, það er aldrei góðs viti. Miðað við það sem ég heyrði frá fólki sem sá myndirnar af því hvernig hann meiddist þá leit þetta ekki vel út.
Ég yrði hissa ef hann getur spilað á sunnudag,“ sagði Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, í samtali við Amazon Prime eftir leikinn.
Liverpool mætir Newcastle United í úrslitaleik enska deildabikarsins á Wembley á sunnudag.