Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool ætla sér að klófesta sænska framherjann Alexander Isak í sumar.
Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en Liverpool er sagt tilbúið að borga í kringum 180 milljónir evra fyrir framherjann sem myndi gera hann að langdýrasta leikmanni í sögu félagsins.
Isak, sem er 25 ára gamall, er samningsbundinn Newcastle í ensku úrvalsdeildinni en hann gæti þó yfirgefið félagið fyrir talsvert lægri upphæð ef Newcastle mistekst að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni fyrir næsta keppnistímabil.
Framherjinn gekk til liðs við Newcastle frá Real Sociedad, sumarið 2022, en hann hefur skorað 19 mörk og lagt upp önnur fimm til viðbótar í 25 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.