Forráðamenn sádiarabíska knattspyrnufélagsins Al Hilal hafa boðið hollenska varnarmanninum Virgil van Dijk 20 milljónir evra í árslaun þar í landi, tæplega þrjá milljarða íslenskra króna.
Það er franski miðillinn L'Equipe sem greinir frá þessu en van Dijk, sem er 33 ára gamall, er fyrirliði enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool.
Samningur hans á Anfield rennur út í sumar og hefur hann ekki skrifað undir nýjan samning við Liverpool enn sem komið er.
Honum var frjálst að ræða við önnur félög í janúar en hann gekk til liðs við Liverpool frá Southampton í janúar árið 2018 fyrir 75 milljónir punda og var þá dýrasti varnarmaður heims.
Van Dijk hefur leikið 310 leiki fyrir félagið í öllum keppnum og skorað í þeim 26 mörk en hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna með félaginu.