Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, er mikill aðdáandi Masons Mounts, sem hefur glímt við þrálát meiðsli á tímabilinu.
Mount hefur tekið þátt í síðustu æfingum og gæti verið í leikmannahópnum þegar Man. United heimsækir Leicester City í ensku úrvalsdeildinni á sunnudagskvöld.
„Ég elska Mason Mount því ég sé hann og veit hve mikið hann þjáist. Ég veit að hann gerir allt rétt. Hann borðar rétt, líkamlega gerir hann allt rétt. Hann er að reyna of mikið.
Ég hef mikla trú á honum. Við þurfum leikmenn eins og Mount. Hann varð Evrópumeistari. Hann er mjög hæfileikaríkur leikmaður.
Þegar leikmaður nálgast allt eins og hann gerir mun hann ávallt njóta stuðnings allra hjá félaginu,“ sagði Amorim á fréttamannafundi í dag.