Bruno Fernandes, fyrirliði enska knattspyrnuliðsins Manchester United, hefði getað farið frá félaginu síðasta sumar.
Fernandes skoraði þrennu fyrir United í gærkvöld þegar liðið vann Real Sociedad, 4:1, í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar á Old Trafford og mætir Lyon frá Frakklandi í átta liða úrslitum.
„Ég settist niður með forráðamönnum félagsins því ég fékk tilboð annars staðar frá. Við fórum yfir stöðuna, hvort ég ætti að fara eða vera um kyrrt. Ég spurði einfaldlega hvort þeir sæju mig enn sem hluta af framtíðaráætlunum félagsins, eða ekki.
Erik Ten Hag (þáverandi knattspyrnustjóri) var mjög skýr í sínu máli og sagði að ég ætti að vera í stóru hlutverki í uppbyggingu liðsins. Ég féllst á það því ég taldi að við gætum náð langt með þetta lið,“ sagði Fernandes við BBC eftir leikinn.
Tímabilið virðist hins vegar ætla að verða það versta frá árinu 1974 þegar United féll úr efstu deild en liðið er í 14. sæti úrvalsdeildarinnar. Frammistaðan í Evrópudeildinni gæti þó að einhverju leyti bjargað tímabilinu.