Liverpool gerði sér lítið fyrir og lagði nágranna sína í Manchester United örugglega að velli, 3:1, í ensku A-deildinni í knattspyrnu kvenna í Liverpool í kvöld.
Með sigrinum fór Liverpool upp í fimmta sæti þar sem liðið er með 21 stig. Man. United fór niður í þriðja sæti þar sem liðið er með 36 stig.
Olivia Smith skoraði tvívegis og Fuka Nagano komst einnig á blað. Maya Le Tissier skoraði sárabótamark fyrir Man. United einni mínútu fyrir leikslok.
Arsenal gerði þá góða ferð til Liverpool og lagði Everton, 3:1, og fór þannig upp fyrir Man. United í annað sætið, þar sem bæði lið eru með 36 stig. Everton er í áttunda sæti með 16 stig.
Alessia Russo skoraði tvívegis fyrir Arsenal auk þess sem Maren Mjelde, leikmaður Everton, skoraði sjálfsmark.
Toni Payne skoraði mark Everton.