Jordan Henderson, leikmaður Ajax og fyrrverandi fyrirliði Liverpool til margra ára, er í enska landsliðshópnum í knattspyrnu í fyrsta sinn í rúmt eitt og hálft ár.
Þjóðverjinn Thomas Tuchel, nýr þjálfari enska landsliðsins, valdi sinn fyrsta hóp í dag og birti enska knattspyrnusambandið stutt myndband í tilefni þess.
Þar útskýrði hann meðal annars hví Henderson varð fyrir valinu, en margir Englendingar eru hissa á því að hann sé að koma aftur í landsliðið 34 ára gamall.
„Ég valdi Henderson því hann hefur átt frábæran feril. Ásamt því er ég svo ánægður með hvernig hann er að spila og bera sig hjá Ajax.
Hann er mikill karakter og er einn af leiðtogum liðsins. Ég tel hann mikilvægan til að mynda samheldni í liðinu sem fyrst“ sagði Tuchel.