Brentford gerði góða ferð á suðurströndina er liðið lagði Bournemouth að velli, 2:1, í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag.
Heimamenn komust yfir á 17. mínútu eftir að Vitaly Janelt, miðjumaður Brentford, skoraði sjálfsmark. Yoane Wissa jafnaði metin fyrir Brentford eftir hálftímaleik og var staðan 1:1 í hálfleik.
Daninn Christian Nørgaard kom Brentford yfir á 71. mínútu og tryggði gestunum stigin þrjú.
Úrslitin þýða að Brentford situr í 11. sæti deildarinnar með 41 stig en Bournemouth er í níunda sæti með 44 stig.
Hákon Rafn Valdimarsson var allan tímann á bekknum hjá Brentford.