Thomas Tuchel, þjálfari enska landsliðsins, valdi ekki Jack Grealish í landsliðshópinn fyrir tvo leiki liðsins í undankeppni HM en segir að hann sé hluti af framtíðarplönum hans með landsliðið.
Jack Grealish hefur aðeins spilað þrjá leiki á tímabilinu fyrir Manchester City og verið meira áberandi utan vallar en innan.
„Auðvitað er ekki gott að hann sé mikið í fréttum en það er kannski ekki honum að kenna. Allir eru með síma á sér og þessir leikmenn eru frægir, þetta getur gerst. Þetta er ekki tilvalið, við viljum að hann sé rólegri en þetta er ekki ástæðan af hverju hann var ekki valinn,“ sagði Tuchel um Grealish.
„Ég elska Jack. Ég elska allt við hann, persónuleikann, gæðin, hugrekkið, hann getur tekið gagnrýni. Hann lætur það ekki á sig fá ef það er púað á hann,“ sagði Tuchel um Grealish og hélt áfram:
Er hann leikmaður sem getur verið í landsliðinu og haft áhrif á liðið? Já, hundrað prósent en undanfarið hefur hann ekki verið í takti og hann veit það sjálfur. Ég held að hann verði betri og betri því meira sem hann spilar og getur verið límið í liðinu. Yngri leikmenn festa sig við hann.“